Hugvíkkandi ráðstefna á Íslandi um merkilega þróun í geðlæknisfræðum

10. janúar, 2023 | Greinar

Sigurður Hólm Gunnarsson

Notkun hugvíkkandi efna í meðferðartilgangi hefur töluvert verið til umræðu undanfarin ár enda hafa nýlegar rannsóknir bent til þess að fagleg meðferð með slíkum efnum geti hjálpað fólki sem þjáist meðal annars af meðferðarþráu þunglyndi, áfallastreitu og kvíða. Um þessi mögulegu straumhvörf í geðlæknisfræðum verður fjallað um á áhugaverðri ráðstefnu sem haldin verður í Silfurbergi, Hörpu þann 12. og 13. janúar næstkomandi.

Hvað eru hugvíkkandi efni?

Hugvíkkandi efni eru, í stuttu máli, náttúrleg eða manngerð efni sem valda afgerandi breytingum á skynjun notenda til skemmri tíma. Dæmi um slík efni eru sílósíbín (sem unnið er úr „ofskynjunarsveppum“), ketamín, LSD, DMT og MDMA. Mörgum kann eflaust að finnast framandi að tala um lækningarmátt hugvíkkandi efna. Er það skiljanlegt þar sem fjölmiðlaumfjöllun hefur í áratugi dregið upp dökka og oft villandi mynd af þessum efnum þar sem þau eru flokkuð eins og hver önnur hættuleg fíkniefni.

Hugvíkkandi efni er þó varla hægt að skilgreina sem „fíkniefni“ né „eiturlyf“ því fátt bendir til þess að þau séu ávanabindandi og möguleg skaðleg líkamleg áhrif þeirra virðast mun vægari en af löglegum vímugjöfum eins og áfengi og tóbaki. Þetta þýðir þó alls ekki að hugvíkkandi efni séu hættulaus. Þau geta vissulega verið hættuleg séu þau notuð án undirbúnings og umsjónar fagaðila. Að auki er það fylgifiskur bannstefnunnar í vímuefnamálum að fólk sem kýs að taka þessi efni neyðist til að verða sér út um þau á svörtum markaði þar sem ekkert eftirlit er með innihaldi og gæðum.

Þörf á framförum í geðlæknisfræðum

Rannsóknir á sjöunda áratugnum og svo núna síðustu tíu ár eða svo, virðast sýna töluverðan árangur af faglegri notkun hugvíkkandi efna til meðhöndlunar á meðferðarþráu þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun. Einnig virðist meðferð með sílósíbín geta dregið úr ótta fólks með lífshættulega sjúkdóma við dauðann. Enn aðrar rannsóknir hafa sýnt góðan árangur í notkun þessara efna til að meðhöndla og draga verulega úr fíknivanda, þar á meðal áfengissýki og nikótínfíkn.

Ef frekari rannsóknir staðfesta þennan árangur gæti mögulega verið um töluverð framför að ræða þegar kemur að meðhöndla geðræna kvilla. Það er því til mikils að vinna að rannsaka notkun hugvíkkandi efna enn frekar í meðferðartilgangi enda eru alltof margir sem þjást vegna vanlíðan sem hefur reynst erfitt að lækna með hefðbundnari aðferðum. Enn sem komið er eru hugvíkkandi efni ólögleg hér á landi, hvort sem er til einkanota eða í meðferðartilgangi þó breytinga sé að vænta. Í september 2022 lögðu 22 þingmenn úr öllum flokkum fram þingsályktunartillögu um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbin, sem er virka efnið í svokölluðum ofskynjunarsveppum, í geðlækningaskyni.

Ráðstefna um notkun hugvíkkandi efna í meðferðartilgangi: Psychedelics as Medicine

Á áðurnefndri ráðstefnu sem fram fer næstkomandi fimmtudag og föstudag í Hörpu er aðalumfjöllunarefnið staða rannsókna á hugvíkkandi efnum og möguleg notkun þeirra í meðferðarskyni. Á ráðstefnunni verða helstu frumkvöðlar, vísindamenn og fyrirlesarar í fræðum hugvíkkandi efna í meðferðarskyni.

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru:

Michael Pollan  – Bandarískur rithöfundur, blaðamaður og höfundur bókarinnar og síðar samnefndrar Netflix-þáttaraðar How to Change Your Mind.

Dr. Rick Doblin – Frumkvöðull á sviði MDMA meðferða við áfallastreituröskun síðustu fjóra áratugi. Doblin stofnaði Multidisciplinary Association for Psychedelic Studies (MAPS) árið 1986 sem er þverfaglegt félag um sálfræðirannsóknir og hugvíkkandi efni.

Dr. Will Siu – Geðlæknir og ónæmisfræðingur við Háskólann i Oxford. Rannsóknir hans á hugvíkkandi meðferðum hafa vakið athygli. Er hann sem dæmi einn aðalrannsakandi í tilraunarannsókn þar sem sálfræðimeðferð með aðstoð MDMA til meðferðar á vefjagigt er til skoðunar.

Dr. Danielle Schlosser – Yfirmaður klínískrar nýsköpunar hjá breska geðheilbrigðisfyrirtækinu Compass Pathways. Compass Pathways er leiðandi í rannsóknum á heimsvísu þegar kemur að hugvíkkandi efnum.

Nánari upplýsingar um ofangreinda fyrirlesara og marga fleiri eru að finna á vef ráðstefnunnar.

Ég hvet alla sem vilja kynna sér stöðu rannsókna á hugvíkkandi efnum til að skrá sig á þessa ráðstefnu. Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að hlusta á allt þetta fræðafólk hér á landi.

Upplýst umræða um hugvíkkandi efni

Ég vil hvetja alla, ekki síst fagfólk og stjórnmálafólk, til að mæta á umrædda ráðstefnu 12. og 13. janúar í Hörpu og fræðast um mögulegan ávinning af notkun hugvíkkandi efna í meðferðartilgangi. Það er þörf á nýjum aðferðum til takast á við geðræna kvilla og við megum ekki láta eigin fordóma og ótta, sem oftast er byggður á fáfræði, koma í veg fyrir að við kynnum okkur nýjar aðferðir sem mögulega gætu hjálpað mörgum.

Nánari upplýsingar:

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarssson

Formaður Hugvíkkandi

Sigurður Hólm Gunnarsson hefur lokið námi í Psychedelic-Assisted Therapy Training frá Integrative Psychiatry Institute (IPI). Námið er fyrir faglært heilbrigðisstarfsfólk sem vill veita meðferð með hugvíkkandi efnum. Sigurður hefur einnig lokið MAPS MDMA Therapy Training frá MAPS (Multidisciplinary Association for Psychedelic Studies).

Sigurður er einnig iðjuþjálfi og sáttamiðlari og rekur ráðgjafastofuna Allir sáttir þar sem hann býður meðal annars upp á hugvíkkandi samtal. Í slíkum samtölum er farið yfir hvernig sé best að undirbúa sig fyrir að nota hugvíkkandi efni. Hvað ber að hafa í huga og hvað ber að varst. Ef viðkomandi hefur þegar notað hugvíkkandi efni er boðið upp á samtöl um hvernig best sé að vinna úr reynslunni.