Markmið og lög

Markmið

Félagið er stofnað sem vettvangur fyrir áhugafólk um hugvíkkandi efni til að sameina krafta sína, efla málsvarastarf og fræðast um málefnið. Tilgangur félagsins er að skapa samfélagslegan vettvang fyrir umræðu og vitundarvakningu, stuðla að framförum í rannsóknum og lagaumhverfi, og efla alþjóðlega samvinnu með því að styrkja tengsl við sambærileg félög.

Lög Hugvíkkandi

1. grein

Nafn félagsins er Hugvíkkandi – samtök áhugafólks um hugvíkkandi efni.

2. grein

Félagið er stofnað sem vettvangur fyrir áhugafólk um hugvíkkandi efni til að sameina krafta sína, efla málsvarastarf og fræðast um málefnið. Tilgangur félagsins er að skapa samfélagslegan vettvang fyrir gagnrýna umræðu og vitundarvakningu, stuðla að framförum í rannsóknum og lagaumhverfi á Íslandi og efla alþjóðlega samvinnu með því að styrkja tengsl við sambærileg félög.

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með fyrirlestrahaldi, námskeiðum, birtingu fræðsluefnis, upplýsingamiðlun og með samstarfi við önnur sambærileg samtök. Félagið er óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

3. grein

Stjórn félagsins skipa fimm einstaklingar auk allt að fjórir til vara, kosnir til tveggja ára í senn. Stjórn kýs formann, gjaldkera og ritara og skiptir með þeim verkum.

4. grein

Stjórnin ber ábyrgð á starfsemi félagsins milli aðalfunda. Stjórnarfundir eru löglegir ef meirihluti stjórnarmenn taka þátt í umræðum á netfundi. Stjórnin getur skuldbundið félagið fjárhagslega á grundvelli bókaðra samþykkta á stjórnarfundi. Heimilt er að halda stjórnarfundi á netinu.

5. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal til hans boðað með fjórtán daga fyrirvara með sannanlegum hætti. Á aðalfundi hefur hver skuldlaus félagsmaður eitt atkvæði. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

6. grein

Aðalfund skal halda fyrir lok nóvembermánaðar ár hvert. Heimilt er að halda aðalfund á netinu.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar um starf félagsins á liðnu ári.
  3. Skýrsla og tillaga stjórnar um verkefnin framundan.
  4. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  5. Skráning nýrra félaga. Aðalfundi er heimilt að takmarka fjölda nýrra félagsmanna og setja reglur um ábyrgð og skyldur þeirra.
  6. Lagabreytingar.
  7. Stjórnarkjör til tveggja ára í senn. Kjósa skal nýja stjórnarmenn ef sitjandi stjórnarmenn biðjast lausnar frá stjórnarstörfum áður en kjörtímabili þeirra lýkur.
  8. Kjör eins skoðunarmanns reikninga félagsins.
  9. Ákvörðun um félagsgjöld.
  10. Önnur mál.

7. grein

Heimilt er að boða til aukaaðalfundar ef formaður, meirihluti stjórnar eða fimmtungur skráðra félagsmanna sem greitt hafa félagsgjöld krefst þess og leggur fram tillögu að dagskrá. Aukaaðalfundur skal boðaður með sama hætti og reglulegir aðalfundir og heimilt er að halda hann á netinu.

8. grein

Reikningsár félagsins hefst 1. desember. Reikningar skulu staðfestir af einum félagslegum skoðunarmanni sem aðalfundur kýs.

9. Grein

Lögum félagsins má breyta á löglega boðuðum aðalfundi með samþykki 2/3 atkvæða.

10. grein

Komi fram tillaga um að slíta félaginu skal farið með hana eins og lagabreytingartillögu, enda sé hún undirrituð af fjórðungi félagsmanna. Þá skal boða til aukaaðalfundar með sama hætti og reglulegs aðalfundar og þarf tillagan að hljóta 2/3 atkvæða á fundinum til að slíta megi félaginu. Verði félaginu slitið skal ráðstafa eignum þess í samræmi við tilgang félagsins.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi / aðalfundi Hugvíkkandi, samtaka áhugafólks um hugvíkkandi efni þann 14. september 2022