Kvíði og þunglyndi eru algengir fylgikvillar við greiningu krabbameins og sérstaklega kvíði tengdur meðferð, líknar- og lífslokaferlinu, endurkomu sjúkdóms og/eða dauðanum. Ég hef gegnt starfi hjúkrunarfræðings í stuðnings- og ráðgjafarteymi fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur frá árinu 2014. Í gegnum starf mitt hef ég hitt marga með kvíða, angist, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Að heyra orðið „krabbamein“ veldur oft mikilli angist. Að fá fjórða stigs greiningu er mikið áfall fyrir flesta og ekki aðeins fyrir þann sem greinist heldur líka fyrir aðstandendur. Dauðinn sem hefur verið fjarlægur er skyndilega kominn beint fyrir framan nefið á þér. Rannsóknir benda til þess að þetta vandamál sé oft vanmetið og vangreint. Þó mikill vilji sé hjá heilbrigðisstarfsfólki til að reyna að draga úr þessum einkennum, þá duga stundum ekki þau meðferðarúrræði sem fyrir eru. Heilbrigðisstarfsfólk er í lykilhlutverki sem málsvarar sjúklinga og ber skylda til þess að afla sér þekkingar á nýjum gagnreyndum úrræðum.
Mikil aukning hefur verið síðustu ár á rannsóknum á hugvíkkandi efnum (e. psychedelics) í meðferðarskyni við ýmsum sálrænum kvillum, þar á meðal kvíða og þunglyndi. Þar má sérstaklega nefna psilocybin, virka efnið í svokölluðum töfrasveppum (Magic mushrooms), en lítið hefur farið fyrir umfjöllun um þessi efni innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi.
Fyrri og seinni bylgja rannsókna
Talað er um fyrri og seinni bylgju rannsókna á hugvíkkandi efnum. Fyrri bylgja stóð frá 1950 og til ársins 1971 þegar Nixon, Bandaríkjaforseti þess tíma, ákvað að segja öllum hugbreytandi efnum stríð á hendur og lýsti yfir „stríði gegn vímuefnum“. Hluti af þeirri stefnu hans var að flokka hugvíkkandi lyf sem „schedule one drug“ og setja þau í flokk með fíknilyfjum og lyfjum sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafi læknisfræðileg áhrif. Þar með lokaði Nixon á frekari rannsóknir á hugvíkkandi efnum sem voru farnar að lofa góðu. Seinni bylgja byrjar í kringum 2006, jafnvel fyrr. Í fyrri bylgju rannsókna voru gerðar rannsóknir á sjúklingum með langt gengið krabbamein með geðræna kvilla og þá aðallega með LSD en einnig psilocybin. Í seinni bylgju hafa rannsóknir lagt meiri áherslu á psilocybin en bæði þessi efni eru flokkuð sem klassísk hugvíkkandi lyf (e. classic psychedelics). Það er eðlilegt að það beri á hræðslu hjá heilbrigðisstarfsfólki þegar þessi efni hafa verið í sama flokki og fíkniefni / eiturlyf í um og yfir 30 ár. Efnin voru færð í þennan flokk með einu pennastriki, en þrautinni þyngri hefur reynst að fá endurskoðun á flokkuninni. Jafnvel hafa komið hugmyndir um að fara í mál við heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum því efnafræðilega séð hefðu þessi lyf aldrei átt að fara í þennan flokk til að byrja með, þar sem fíknistuðull þeirra er mjög lítill og meðferðarstuðull hár.
John Hopkins leiðandi
John Hopkins háskóli hefur verið leiðandi í rannsóknum á hugvíkkandi efnum í Bandaríkjunum. Þar fer fremstur nú í seinni bylgju rannsókna Roland Griffiths geðlyfjasérfræðingur, prófessor í taugavísindum, geðlækningum og atferlisfræði. Mjög virtur prófessor sem fékk óvænt leyfi frá FDA að skoða hugvíkkandi efni og birti sýna fyrstu rannsókn um efnið árið 2006. Sú rannsókn vakti mikla athygli en að mestu innan fræðigreinarinnar „geðlyfjarannsóknir“ (e. psychopharmacology). Dr. Griffiths segir að svörun frá þessari fyrstu rannsókn hafi komið honum á óvart, hann hefði aldrei séð svona góða svörun við nokkru geðlyfi á hans ferli, sem spannaði þá 30 ár (í dag yfir 45 ár) við rannsóknir á geðlyfjum. Þetta virðist hafa opnað augu hans fyrir því að hér væri eitthvað sérstakt á ferðinni og eftir 2006 byrja rannsóknir hans að einskorðast við hugvíkkandi efni og þá aðallega psilocybin.
Hvernig virkar Psilocybin?
En hvernig virkar hugvíkkandi efnið psilocybin á einstaklinga? Dr. Robin Carhart-Harris og dr. Rosalind Watts frá Imperial College of London komu með einfalda útskýringu á virkun psilocybin. Hugsaðu þér að þú sért á skíðum og ferð alltaf niður sömu brekkuna eða leiðina sem er orðin mjög grafin það er hugsanir þínar eru fastar í sömu krítísku hugsana skekkjunni „ég er ekki nógu góð/ur“, „ég er ekki elskuð/aður“ fólk tali stundum um andlegt fangelsi, hjakkar í sömu hugsunum ár eftir ár, kannski þekkir ekkert annað. Ímyndaðu þér að psilocybin sé snjótroðari sem fyllir upp í skorurnar þannig að brekkan er orðin slétt og þú tekur eftir öðrum leiðum niður brekkuna. En margir þurfa aðstoð við að festa þessar nýju hugsanir, bæði að sjá þær og veita athygli þannig að þú farir ekki aftur niður sömu brekkuna það er í sömu hugsunarskekkjuna. Ítrekað sé að fyrir- og eftirmeðferð sé jafnmikilvæg og sjálfur pilocybin dagurinn, talað er um í rannsóknum psychedelics-assisted therapy (PAT) sem tekur oft margar vikur. En það er eðlilegt að við séum hrifin af „quick fix“ einföldum og skjótum lausnum og sögum, hver er það ekki. En hugvíkkandi er eins og aðrar meðferðir, virka ekki fyrir alla.
Hugvíkkandi og líkn
Margar rannsóknir hafa verið gerðar með hugvíkkandi efnum við kvíða og þunglyndi en minna hefur verið rannsakað á sviði líknarmeðferðar þessa geðrænu tilvistarkreppu sem upp getur komið í líknar- og lífslokameðferð. Heimsráðstefnan IPOS (International Psycho-Oncology Society) er árleg ráðstefna um geð og krabbamein sem var haldin í Kanada í september á síðasta ári 2022. Einn af aðal fyrirlesurum þar var Dr. Anthony Bossis, klínískur sálfræðingur og aðstoðarprófessor í geðlækningum við New York háskóla. Hann hefur verið að rannsaka áhrif hugvíkkandi efna við kvíða og þunglyndi og síðustu ár á sviði líknarmeðferðar (Hospice, end-of-life). Dr. Bossis talar um að mörgum þátttakendum í psilocybin rannsóknum beri saman um að með því að fara inn á við og ná að horfast í augu við óttann, sjúkdóminn og sjálfan dauðann fundu þau fyrir minni kvíða, meiri samúð, ást til sjálfs sín og annarra. Einnig að þau hafi náð að dvelja meira í líðandi stund (núvitund), að þau hafi fengið nýja sýn á lífið og töluðu jafnvel um að hafa fengið „líf sitt til baka“. Þessu ber saman við ummæli Íslendings með langt gengið krabbamein, Ólafs Hrafns Ásgeirssonar. Í viðtali við fjölmiðla lýsir hann upplifun sinni af inntöku hugvíkkandi efna:
– Hjálpaði mér að taka dauðann í sátt, ég óttast enn dauðann, en er ekki lengur hræddur.
– Minn kvíði og þunglyndi gekk í bylgjum en er ekki þannig lengur, ég er í meira jafnvægi.
– Ég hefði viljað hafa tekið þetta fyrr, gerir mann að betri einstaklingi, ég hefði komið betur fram við alla, konuna mína, börnin mín, o.fl. (Stefán Árni Pálsson, 2022).
Rannsóknum beggja vegna Atlantshafsins ber saman um að notkun hugvíkkandi efna eins og psilocybin í meðferðarskyni hafi jákvæð áhrif á kvíða og þunglyndi hjá krabbameinssjúklingum. Einnig hefur þetta möguleika sem öflugt tæki til að meðhöndla erfiða tilvistarkreppu í líknar- og lífslokameðferð. Alkunna er að það tekur um 15-20 ár að koma fræðirannsóknum inn í heilbrigðiskerfið, en ef efnið er ólöglegt þá gerir það málin enn erfiðari. Krabbameinssjúklingar eru þegar byrjaðir að nota þessi efni og eins og staðan er í dag þurfa þeir að leita í undirheima. Það er von að í framtíðinni megi vera breyting þar á en hugvíkkandi meðferð er aðeins ein af mörgum meðferðarleiðum sem heilbrigðisstarfmenn gætu haft í verkfæra töskunni við meðhöndlun geðrænna vandamála hjá krabbameins-sjúklingum en það yrði alltaf val einstaklings hvort hann nýtti sér þá leið.
Ráðstefna um hugvíkkandi
Fyrsta ráðstefna um hugvíkkandi efni á Íslandi fór fram í Hörpunni 12-13. janúar 2023 og var opin bæði fagfólki og almenningi. Þar komu saman helstu fræðimenn um málefnið og þátttakendur komu viðsvegar að úr heiminum. Ráðstefnan var mjög fagleg og vel heppnuð, mikil ánægja og kærleikur ríkti meðal þátttakenda. Það er von að með aukinni fræðslu og vitundarvakningu megi opna umræðu um þetta málefni.
Fyrir þau sem vilja kynna sér hugvíkkandi efni nánar er góð hugmynd að horfa á þættina „How to change your mind“ og myndina „Fantastic Fungi“, sem finna má á streymisveitunni Netflix.